Körfubolti

Stærsta tap meistara í sögu úr­slita­keppninnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anthony Edwards fór fyrir Minnesota Timberwolves í sigrinum stóra á Denver Nuggets í nótt.
Anthony Edwards fór fyrir Minnesota Timberwolves í sigrinum stóra á Denver Nuggets í nótt. getty/AAron Ontiveroz

Með bakið upp við vegginn fræga vann Minnesota Timberwolves 45 stiga sigur á Denver Nuggets, 115-70, í sjötta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildar NBA í nótt. Staðan í einvíginu er 3-3 og úrslit þess ráðast í oddaleik.

Denver átti ekki möguleika gegn vel stemmdu liði Minnesota í nótt og tapið var eins sannfærandi og þau verða. Aldrei í sögu úrslitakeppni NBA hafa meistarar tapað leik jafn stórt og Denver gerði í nótt.

Anthony Edwards skoraði 27 stig fyrir Úlfana og Jaden McDaniels var með 21 stig. Stóru mennirnir Rudy Gobert, Karl-Anthony Towns og Naz Reid skoruðu samtals 33 stig og tóku 38 fráköst.

Fátt var um fína drætti hjá meisturunum sem hittu aðeins úr 30,2 prósent skota sinna í leiknum. Þriggja stiga nýtingin var 19,4 prósent og Denver tapaði frákastabaráttunni, 62-43.

Nikola Jokic skoraði 22 stig og tók níu fráköst en enginn annar leikmaður liðsins skoraði meira en tólf stig. Hálfmeiddur Jamal Murray brenndi af fjórtán af átján skotum sínum.

Oddaleikur Denver og Minnesota fer fram á heimavelli meistaranna á sunnudagskvöldið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×